Ásta ] Guðrún Ágústa ] Björn ] Kjartan ] Ágúst ] Stefanía ] Sigríður ] Kristín ] Jóhanna ] Margrét ] Halldóra Petrína ] Ingileif ] [ Fróðleikur ] Afmæli ] Gestabókin ] Leit ]

 

Formáli á útgáfu niðjatals í júlí 2000 en það er grunnurinn að vinnu minni.

Formáli

Það sem hér birtist er tekið saman í tilefni af ættarmótinu sem haldið verður að Kjarnholtum í Biskupstungum dagana 21. - 23. júlí 2000 þegar afkomendur hjónanna Guðmundar Kristjánssonar og Ingileifar Stefánsdóttur munu koma saman.  Í samantektinni er æviágrip þeirra hjóna, þar sem stiklað er á stóru í lífi þeirra, niðjatal, framættir og síðast er yfirlit yfir niðja í fæðingardagaröð.

Æviágrip Guðmundar og Ingileifar samdi Helga systir mín og tínir hún sitthvað til sem hún taldi skipta máli. Hún raðaði niðjum upp í fæðingardagaröð og var þar að auki mjög hjálpleg við að afla upplýsinga um fjarlægja ættingja og við lokayfirlestur handrits.

Niðjatalið er að stofni til fyrst og fremst verk Kristínar Auðar Jónsdóttur frænku minnar, sem safnað hefur því saman af miklum áhuga um nokkurra ára skeið og haldið því til haga.  Einungis þurfti að sjá til þess að nýjustu upplýsingar kæmust þar á blað eins og eðlilegt er og á stöku stað var mögulegt að bæta gleggri upplýsingum inní.  Samantekt framætta er einnig verk Kristínar en þar á einnig hluta að máli móðir hennar og frænka mín Selma Egilsdóttir.  Eru engu við þar að bæta. Mikil vinna liggur þarna að baki og stöndum við í þakkarskuld við þær mæðgur fyrir verkið og þá alúð sem þær hafa í það lagt.

Niðjatal sem þetta verður að vera villulaust og eru hæg heimatökin.  Brugðið var á það ráð að senda handrit til yfirlestrat innan hvers ættleggs.  Villur eiga því engar að vera, eða eigum við að segja fáar, auk þess sem upplýsingarnar eru að sjálfsögðu nýlegar.  Miðað er við mánaðarmótin júní-júlí; lengur var ekki mögulegt að draga útgáfuna af eðlilegum ástæðum.

Fjöldi ættinga og vina hefur lagt mikla vinnu í að safna upplýsingum, lesa yfir handrit auk annarrar mikilvægrar aðstoðar. Erfitt er að nafngreina alla þá sem lagt hafa hönd á plóg en öllum er hér með þakkað innilega fyrir aðstoðina við að gera niðjatalið þannig úr garði að við getum haft bæði gagn og ánægju af.

Reykjavík, 2. júlí 2000

Gunnar Gunnarsson

 

Hér má sækja word skjöl
með samantektinni 2000. smellið á viðkomandi nafn til að sækja skjalið, síðan er hægt að sækja uppfært skjal frá maí 2008

Ásta     Ásta 2008

Björn     Björn 2008

Kjartan     Kjartan 2008

Ágúst     Ágúst 2008

Stefanía     Stefanía 2008

Sigríður     Sigríður 2008

Kristín     Kristín 2008

Jóhanna     Jóhanna 2008

Margrét     Margrét 2008

Ingileif     Ingileif 2008

Fyrir þá sem eru með ættfræðiforrit og geta notað GED skrár þá er hægt að smella hér og sækja slíka skrá sem nær yfir Pálsætt, Ófeigsfjarðarætt og Grjótaætt til 2003.  Smella hér

   

Æviágrip Guðmundar og Ingileifar

Guðmundur Kristjánsson fæddist þann 19. október 1876 í Hvammi í Dýrafirði og ólst þar upp.  Um fermingaraldur byrjaði hann sjómannsferil sinn með Kristjáni föður sínum sem var útgerðarbóndi þar og var það atvinna hans næstu áratugina.  Hann var lengi skipstjóri á þilfarsskipum og m.a. með skip fyrir Ásgeirsverslun á Ísafirði í 10 ár.  Þótti Guðmundur jafnarn athugull, úrræðagóður og farsæll skipstjórnarmaður.  22 ára gamall kom hann til Ísafjarðar á mótornámskeið og fékk inni hjá hjónunum Stefáni Jónssyni og Ástríði Jóhannesdóttur en dóttir þeirra Ingileif var þá 11 ára gömul.  Dvaldi hann hjá þeim hjónum meðan á námskeiðinu stóð.  Er hann kvaddi gaf hann dótturinni Ingileifu silfurnælu og hafði  látið grafa upphafsstafi hennar IS á næluna og segir sagan að hann hafi látið þessi orð falla við foreldra hennar ,,Geymið stelpuna fyrir mig''.  Lá leið hans síðan til Reykjavíkur þar sem hann fór í Stýrimannaskólann og 27 ára gamall kom hann aftur til Ísafjarðar og réð sig þar á bát. Hann bað um hönd Ingileifar sem þá var orðin 16 ára gömul og gengu þau í hjónaband 3. des 1904 en sökum ungs aldurs Ingileifar þurfti konungsleyfi til giftingarinnar.  Hófu þau búskap sinn að Brunngötu 14 og bjuggu þar alla tíð.  Eignuðust þau 12 börn en 10 komust til fullorðinsára.  Til gamans má geta þess að öll börnin fæddust að Brunngötu 14, í sama rúminu og er þetta rúm nú á minjasafni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Nokkrir fjölskyldumeðlimir hafa verið ættarkenndir með viðurnefninu Grjóti og leikur marga sjálfsagt forvitni á að vita hvaða nafnið Grjóti kemur en tilurð nafgiftarinnar má finna í frásögn í 1. bindi bókarinnar ,,Frá Ystu Nesjum" eftir Gils Guðmundsson.

;;Guðmundur hér maður.  Hann var formaður við Djúp, en fiskaði löngum manna minnst.  Dag nokkurn ber svo við, að hann aflar fremur vel, aldrei þessu vant.  Hinir formennirnir höfðu verið á öðrum miðum og fengið lítinn afla.  Seinastur að landi var formaður sá, sem Magnús hét, annálaður aflamaður.  Hafði það ekki komið fyrir í manna minnum að hann hefði ekki tvöfaldan afla á við Guðmund.  Þegar Magnús kemur að landi, stendur Guðmundur í fjörunni, sperrtur og borginmannlegur.  Strax og kallfært var, hrópar hann til Magnúsar hvort vel sé að fiska.  Magnús segir það lítið vera.  ,,Hvað er þetta!" verður Guðmundi að orði.  ,,Beitið þið grjóti?"  (munnmælasagan er hins vegar á þann veg að Guðmundur hafi löngum farið með nokkuð af grjóti sem ballest í bát sínum en komið með fisk til baka en aðriri ekki og hafi verið sagt að hann beitti grjóti) (gf)

Má ætla að atvik þetta hafi átt sér stað einhvern tíman á fyrsta áratug tuttugustu aldarinnar.

Guðmundur hætti sjómennsku upp úr 1930 og starfaði fyrst um sinn hjá Hafnarsjóði á Ísafirði og hafði þar umsjón með eignum þess en eftir það vann hann í mörg ár hjá skipasmíðastöð Marselíusar á Ísafirði við að spinna hamp og hætti störfum um 1950.  Hann lést á Ísafirði þann 24. maí 1962.

Ingileif Stefánsdóttir var fædd á Haughúsum á Álftanesi þann 5. júlí 1887 en flutti með foreldrum sínum til Ísafjarðar sex ára gömul og bjó þar til dauðadags.  Ekki var mikið um atvinnu fyrir ungar stúlkur á hennar uppvaxtarárum en vitað er að hún vann í fiskverkunarstöð í Neðstakaupstað á Ísafirði.  Sagan hermir að er hún var um 15 ára gömul var hún fengin til starfa við skipaviðgerðir, en forsaga þess er að skipið ,,Ásgeir litli' er sigldi milli Ísafjarðar og Danmerkur varð fyrir áfalli en við það skemmdust plötur á botni skipsins og var ákveðið að gera við skipið á Ísafirði.  Sá sem tók verkið að sér leitað til verkstjóra fiskverkunarstöðvarinnar og bað hann um að útvega sér handfljótan ungling til að handlanga glóandi málmboltana til viðgerðarmannanna.  Verkstjórinn sagðist ekki hafa neinnn handfljótan pilt í vinnu en hjá honum ynni stúlka sem væri handfljótari en allir aðrir.  Þar var hann að vísa til Ingileifar sem síðan var fengin tímabundið í þetta starf og fékk mikið hrós fyrir.  Starfið var það vel launað að hún gat keypt sér pesuföt, þau sömu sem hún og gifti sig í.

Ingileif var mesta myndarkona, ráðdeildarsöm og dugmikil húsmóðir; skapgóð og með mikið jafnaðargeð.  Annáluð var hún fyrir hannyrðir sínar og enn þann dag í dag er verið að dást að handbragðinu.  Þegar kvenfélagið Hlíf á Ísafirði var stofnað var hún ein af stofnendum félagsins og var alla tíð virkur meðlimur þess. Á 50 ára afmæli Hlífar var Ingileif gerð að heiðursfélaga.

Ingileif syrgði mann sinn mikið eftir að hann lést en þau höfðu þá verið gift hátt í 60 ár.  Lifði hún aðeins í rúm 2 ár eftir lát hans og lést 3. september 1964.  Hvíla þau bæði í Ísafjarðarkirkjugarði.

Guðmundur og Ingileif áttu miklu barnaláni að fagna og eru börn þeirra og afkomendur hið mesta myndar- og dugnaðarfólk.  Til fróðleiks má geta að 26 ár liðu milli fæðingu fyrsta og síðasta barns þeirra, barnabörnin urðu 38; það fyrsta fæddist 1929 og það síðasta 1968; barnabörnin eru 96; það elsta er fætt 1953 , það yngsta 1996; barnabarnabörnin eru orðin 96; elsta fætt 1975 og það yngsta fætt 21. júní 2000 og að lokum eitt barnabarnabarnabarnabarn er komið í heiminn, fætt 11. febrúar 1999. Afkomendur Guðmundar og Ingileifar eru 243 talsins m.v. 1. júlí 2000.

Sjálfsagt eru margar sagnir af þeirra daglega lífi en hér að ofan er stiklað á stóru um lífshlaup þeirra en aðrar sögur munu halda áfram að ganga meðal afkomenda þeirra. Eitt er þó víst að skapgerð og eiginleikar Guðmundar og Ingileifar ganga eins og rauður þráður gegnum ættina og taki svo hver til sín sem vill.

 

Blessuð sé minning þeirra.2. júlí 2000

Helga Gunnarsdóttir